Ert þú einn af þessum sem andar vitlaust?
Það eru ágætis líkur á því að þú sért í hópi þeirra sem anda vitlaust þar sem rannsóknir vilja meina að yfir 50% af fólki andi á rangan hátt. Þú hugsar eflaust "hvaða rugl er þetta, það er ekkert hægt að anda vitlaust?" Ég viðurkenni, þetta hljómar alveg þræl heimskulega! Sérstaklega þar sem öndun er ekki eitthvað sem þú lærir heldur er stjórnað af sjálfvirka taugakerfinu. Hvernig andar maður vitlaust?
Með því að vera svokallaður munn andari eða mouthbreather
Með því að anda með efri bringunni í staðinn fyrir þindinni (öndunarvöðvi) eða það sem má kalla "stressöndun"
Þú getur prófað á sjálfum þér. Leggðu aðra hönd á bringu og hina yfir kviðinn. Ef höndin á bringunni lyftist upp þegar þú dregur inn andann, en ekki hin höndin þá ertu að öllum líkindum ekki að anda eðlilega.
Af hverju skiptir þetta máli? Þetta kemur allt niður á því hvernig öndun hefur áhrif á gildi koltvíoxíð (CO2) í lungunum og blóðinu. Eðlilegt magn af CO2 sér til þess að nægilegt súrefni komist til heila og annara vefja í líkamanum. Þegar við öndum vitlaust þá raskast CO2 magnið í líkamanum sem verður til þess að súrefnisupptaka verður ekki nægilega góð. Heilinn er forritaður til þess að kveikja á þindaröndun (réttri öndun) svo lengi sem það er nægilegt magn af CO2 í lungunum. Ef ekki þá býður það upp á vandræði. Eðlileg öndun fyrir fullorðinn einstakling er 8-10 andardrættir á mínútu í hvíld, inn og út um nefið og út frá þindinni. Andardrátturinn á einnig að vera hljóðlátur. Ef andardrátturinn heyrist þá er það merki um óskilvirka öndun. Af hverju neföndun? Vegna þess að við erum hönnuð til að anda með nefinu og borða með munninum. Nefið er með 4 stiga síukerfi
Nefhárin sía ryk og önnur óhreinindi
Slímhúðin geymir ensím sem að drepa bakteríur og kema í veg fyrir sýkingar
Ennis- og kinnholurnar hita loftið til að erta ekki lungun og framleiða-
Nituroxíð sem bætir lungnavirkni, hefur æðavíkkandi áhrif og eykur þar af leiðandi súrefnisupptöku í líkamanum.
Ofan á þetta allt þá örvar neföndun "parasympathetíska" taugakerfið sem hjálpar okkur að slaka á, hægir á hjartslætti og lækkar blóðþrýsting.
Munnöndun ýtir hins vegar undir:
Andfýlu
Bólgur í tannholdi
Lélegra ónæmiskerfi
Aukið álag á hjarta- og æðakerfi
Stress/kvíða
Ertingu í lungum
Munnöndun barna eykur líkurnar á skökkum tönnum, afmynduðu andlitsfalli og heftum líkamsvexti
Hvað veldur því að þú verðir "mouthbreather"?
Það eru margir þættir sem geta haft áhrif en ég skal nefna nokkra.
Með skort á næringu, þá sérstaklega fituleysanlegum vítamínum, á meðgöngu og uppvaxtarárum, fá börn ekki þá næringu sem þarf fyrir eðlilegan líkamsvöxt. Þetta heftir meðal annars vöxt kjálkabeina sem þrengir að öndunarveginum og ennis- og kinnholum. Niðurstaðan = krónísk munnöndun.
Fæðuóþol, ofnæmi og þröngar ennis- og kinnholur eru allt dæmi um eitthvað sem getur haft bólgu- og slímmyndandi áhrif. Vart þarf að taka fram að neföndun með bólgið/stíflað nef gengur almennt ekki vel. Líkaminn finnur aðra leið og skiptir yfir í munnöndun.
Með því að hanga í símanum og sitja eins og
Quasimoto allan daginn í skóla eða vinnu, þá ávísar þú þér þessa líkamsstöðu sem sjá má á myndinni hér að neðan. Ein af afleiðingunum: Brjóstkassinn fellur saman og heftir þindina. Þindin liggur utan um neðri holæð sem flytur næringarsnautt blóð til hjartans. Niðurstaðan = munnöndun og aukið álag á hjarta- og æðakerfið.
Boðskapur sögunnar: Andaðu með nefinu og uppskerðu betri heilsu! Sjá einnig grein um af hverju ég teipa yfir munninn fyrir svefn
Fyrirvari: Þessi pistill er byggður á mínum skoðunum og reynslu og ætti því ekki að taka sem læknisráðgjöf. Notkun upplýsingana sem er að finna í þessum pistil eða efni sem honum tengist er á eigin ábyrgð.
Comments